Badminton unglinga

Tennis- og badminton félag Reykjavíkur eða TBR skipuleggur og heldur sitt árlega unglingameistaramót í tengslum við Reykjavík International Games. Mótið er haldið fyrir keppendur í unglingaflokkum sem eru skilgreindir sem U-13, U-15, U-17 og U-19. Leikmönnum er heimilt að keppa í einliðaleik, tvíliðaleik og tvenndarleik.

Keppni hefst laugardaginn 23. janúar kl.9 og stefnt er að því að leika fram í undanúrslit í öllum flokkum og greinum þann dag. Undanúrslit hefjast svo á sunnudagsmorgni kl.9 og á eftir fylgja úrslitaleikir.

Keppt verður í stóra sal TBR við Gnoðarvog 1 sem er eingöngu badmintonhús og þykir hið glæsilegasta á alþjóðamælikvarða en í húsinu eru 12 badmintonvellir á trégólfi.