Bogfimi

Keppni í bogfimi á Alþjóðlegu Reykjavíkurleikunum hófst árið 2011. Keppt er samkvæmt World Archery reglum með ólympískum sveigbogum og trissubogum í opnum karla- og kvennaflokki. Skotið er 2x30 örvum og síðan keppa 32 efstu keppendurnir til úrslita, maður á mann, þar til úrslit eru ráðin. Skotið er af 18 metra færi í innanhússkeppnum og notaðar þriggja hringja skotskífur.

Bogfimi hefur verið stunduð á Íslandi síðan 1974 en náði fyrst uppsveiflu seint árið 2012. Síðan 2011 hefur félögum sem stunda bogfimi fjölgað úr tveimur uppí níu. Árið 2014 fóru fyrstu íslensku félögin með sveitir á alþjóðleg mót og náðu strax góðum árangri: 9. sæti í liðakeppni á heimsmeistaramótinu innandyra og 4. sæti í einstaklingskeppni á heimsbikarmóti. Í sumar var farið á HM utandyra þar sem 4 Íslandsmet voru slegin. Næstu stórmót eru í aðsigi og er 9 manna hópur að fara á EM, Í Nottingham. Þar er meðal annars keppt um réttin til að taka þátt í Ólympíuleikunum 2016 í Ríó.

Keppnin fer fram í Bogfimisetrinu, Dugguvogi 2, 104 Reykjavík.