Frjálsar íþróttir

Frjálsíþróttamót Reykjavik International Games eða RIG eins og það er nefnt í daglegu tali er sprottið út frá vígslumóti Frjálsíþróttahallarinnar í Laugardalnum árið 2006. Engum dylst sú mikla breyting sem Höllin hefur haft í för með sér á aðstöðu til iðkunar frjálsíþrótta í landinu.

Nú er RIG orðið alþjóðlegt fjölgreina íþróttamót með mikilli erlendri þátttöku. Markmiðið með RIG er að skapa metnaðarfulla keppni fyrir besta frjálsíþróttafólk okkar og góða skemmtun fyrir áhorfendur í leiðinni. Boðið hefur verið til leiks erlendu keppnisfólki og hingað hafa komið þátttakendur frá öðrum Norðurlöndum, Bretlandi og víða af meginlandi Evrópu og jafnvel frá Karabíska hafinu.

RIG er skilgreint sem EAA Permit mót með staðfestingu frá Frjálsíþróttasambandi Evrópu (EAA) og er það í samræmi við stefnu mótshaldara, sem í þetta sinn er Frjálsíþróttasamband Íslands. Vegna athygli sem mótið hefur hlotið, var FRÍ líka boðin aðild að Euromeetings samtökunum sem eru samtök helstu mótshaldara í Evrópu. Markmiðið er að bæta mótið og gera það öflugra með hverju árinu.