Hjólreiðar

Tvær ólíkar hjólakeppnir verða á Reykjavíkurleikunum. Þann 26. janúar verður keppt í Cycling Eliminator keppni í Reiðhöllinni í Víðidal en 29. janúar verður keppt í Upphill Duel (Hjólaspretti) á Skólavörðustígnum í hjarta Reykjavíkur. Í Upphill Duel reynir fyrst og fremst á spretthörku keppenda en í Cycling Eliminator skiptir tækni ekki síður máli. Reikna má með frábærri stemningu og góðri aðstöðu fyrir áhorfendur.


Cycling Eliminator (útilokunar) áskorunin, 26. jan kl. 19-20

Cycling Eliminator er afar spennandi tegund keppnishjólreiða. Fyrirkomulagið er þannig að fjórir keppendur eru ræstir samtímis inn í krefjandi braut í Reiðhöllinni í Víðidal en þar eru frábærar aðstæður fyrir áhorfendur og keppendur enda varðir fyrir veðri og vindum. Tveir keppendur komast áfram úr hverjum riðli í næstu umferð þangað til aðeins fjórir keppendur standa eftir. Í lokariðlinum þurfa menn hins vegar ekki að forðast útilokun heldur koma fyrstir í mark og landa þar með Cycling Eliminator titli Reykjavíkurleikanna. Það reynir á spretthörku, tækni og klókindi í svona keppni og óhætt er að reikna með afar harðri og spennandi keppni. Keppendum verður raðað tilviljanakennt í fjögurra manna riðla, hámarksfjöldi keppenda er 64 og keppt verður í opnum flokki karla og kvenna.


Uphill Duel, 29. jan kl. 19-20

Ræst verður neðst á Skólavörðustíg og hjólað upp að Bergstaðastræti á braut sem er um 70 metra löng. Val keppenda á hjólreiðfáki er frjálst. Rétt er að minna á að Skólavörðustígur er upphitaður svo að ekki verður sérstök þörf á nagladekkjum eða öðrum búnaði tengdum vetrarhjólreiðum. Hámarksfjöldi þátttakenda er 32 og verður þeim raðað af handahófi þar sem tveir keppendur spretta samtímis. Notast verður við útsláttarfyrirkomulag og að lokum mun aðeins einn sigurvegari standa eftir í karla og kvennaflokki.