Listhlaup á skautum

Listhlaup á skautum hefur verið hluti af RIG síðan 2008 og er mótið í dag sterkasta mót sem haldið er hérlendis í greininni. Mótið er á mótaskrá Alþjóða Skautasambandsins (ISU) og þátttaka í mótinu gildir til stiga hjá ISU sem er mikilvægt til þess að laða að erlenda keppendur á heimsmælikvarða. Skautasamband Íslands (ÍSS) skipuleggur mótið og Listhlaupadeild Skautafélags Reykjavíkur (SR) er mótshaldari.

Góð skráning er á mótið í ár og alls hafa 7 þjóðir sent inn skráningu fyrir 43 keppendur í ISU flokkum, þar af eru 23 erlendir. Auk ISU flokkanna verður mótið einnig keyrt sem milliklúbba mót í yngri A flokkum og eldri B flokkum.

Í Kvennaflokki (Senior) hafa 8 keppendur skráð sig til leiks. Má þar nefna Camilla Gjersem frá Noregi, Juulia Turkkila frá Finnlandi og Michaela Du Toit frá Suður Afríku. Allar eru þær meistarar í sínu heimalandi og hafa náð góðum árangri á stærstu mótum í íþróttinni. Má þar nefna að Camilla varð í 21.sæti á Evrópumótinu og Juulia í 12.sæti á sama móti og 18. á Heimsmeistaramótinu. Í Unglingaflokki (Junior) eru 22 keppandi skráðir til leiks, þar af 10 erlendar stúlkur og 1 strákur.