Skotfimi

Í skotfimi á Reykjavíkurleikunum verður keppt í loftskammbyssu og loftriffli karla og kvenna í aðstöðu Skotfélags Reykjavíkur í Egilshöllinni í Grafarvogi.

Þessar skotgreinar eru afar vinsælar um allan heim og er keppt í þeim í flestum löndum heims. Keppni í loftriffli kvenna hefur t.d. verið opnunargrein Ólympíuleika síðustu árin. Hérlendis er loftskammbyssugreinin afar vinsæl og loftriffillinn sækir stöðugt á. Á síðustu Ólympíuleikum í London 2012 átti Ísland einn keppanda í loftskammbyssu, sem náði þar fínum árangri og endaði í 14. sæti. Áður hafði Skotfélag Reykjavíkur átt keppanda á leikunum í Barcelona 1992 og í Sidney árið 2000.

Markmið Skotfélags Reykjavíkur með þátttöku í RIG er að kynna betur fyrir almenningi skotfimi sem íþrótt og að laða til landsins erlenda skotmenn til að keppa við okkar sterkustu skotmenn sem nú þegar hafa skapað sér nafn á Evrópu- og heimslistum í loftskotfimi.