Skylmingar

Á Alþjóðlegu Reykjavíkurleikunum í skylmingum verður keppt með höggsverðum í karla- og kvennaflokki. Auk þess verður haldin keppni fyrir börn og unglinga. Keppnin fer fram í Skylmingamiðstöðinni í Laugardal sem er staðsett í stúkubyggingu Laugardalsvallar.

Skylmingar hafa verið stundaðar lengi á Íslandi og um miðja síðustu öld voru tvö skylmingafélög starfandi í Reykjavík. Á sjöunda áratug síðustu aldar var lægð í ástundun skylminga en 1983 var Skylmingafélag Reykjavíkur endurvakið. Frá þeim tíma hefur ástundun farið vaxandi og íslenskir skylmingamenn hafa stöðugt bætt árangur sinn á alþjóðlegum mótum. Skylmingafélag Reykjavíkur flutti starfsemi sína í Skylmingamiðstöðina í Laugardal 2008 en aðstaða þar er öll hin glæsilegasta og tækjabúnaður er til fyrirmyndar. Þann 14. júní 2008 var Skylmingamiðstöðin formlega gerð að samnorrænni miðstöð til þjálfunar skylminga með höggsverði.