Reykjavíkurleikarnir

Reykjavík International Games eða Alþjóðlegu Reykjavíkurleikarnir eru nú haldnir í níunda sinn en þeir eru haldnir árlega í janúar. Á leikunum er keppt í tuttugu íþróttagreinum og fer keppnin að mestu fram í Laugardalnum. Tilgangur leikanna er að auka samkeppnishæfni íslenskra keppenda og draga úr ferðakostnaði þeirra með því að fá sterka erlenda keppendur til leiks. Í ár eru keppendur á þriðja þúsundið og erlendir gestir á fimmta hundraðið auk þess sem aragrúi sjálfboðaliða vinnur að skipulagi og framkvæmd mótsins.

Hugmyndin um leikana sprettur annarsvegar af frumkvæði forráðamanna Frjálsíþróttadeildar ÍR og Sundfélagsins Ægis sem höfðu haldið alþjóðleg mót í janúar um tveggja áratuga skeið en hinsvegar af þeirri reynslu sem varð til hjá Íþróttabandalagi Reykjavíkur þegar haldnir voru velheppnaðir Alþjóðaleikar ungmenna 2007 (International Children´s Games) í Reykjavík. Nú er keppt í badminton, bogfimi, borðtennis, dansi, frjálsum íþróttum, glímu, hjólreiðum, júdo, karate, keilu, kraftlyftingum, listhlaupi á skautum, ólympískum lyftingum, skíða- og snjóbrettaíþróttum, skotfimi, skvassi, skylmingum, sundi, sundi fatlaðra og taekwondo.

Undirbúningshópur með fulltrúa frá hverri íþróttagrein starfar allt árið en einstakir mótshlutar eru á ábyrgð einstaka félaga, sérráða og sérsambanda ÍSÍ. Daglegt starf er í höndum sex manna framkvæmdastjórnar en hana skipa að þessu sinni Gústaf A. Hjaltason, sem er formaður, Bjarnveig Guðjónsdóttir, Jón Þór Ólason, , Reinharð Reinharðsson,Vilhelm Patrick Bernhöft og Kjartan Ásmundsson framkvæmdastjóri.

Opinber bakhjarl RIG er Síminn en einnig munar miklu um stuðning MS, AVIS og Icelandair auk stuðnings Reykjavíkurborgar.